154. löggjafarþing — 3. fundur,  14. sept. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[09:47]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það dugar lítt í málefnalegri umræðu um fjárlagafrumvarpið að koma með einhverja frasa eins og að velferðin sé sett á ís sem engin innstæða er fyrir, ekki ein einasta innstæða. Varðandi aðhaldsaðgerðir ríkissjóðs þá erum við sérstaklega að hlífa framlínufólkinu eins og því fólki sem hér er sérstaklega vísað til, þ.e. við höfum ekkert efni á því að fækka fólki í heilbrigðiskerfinu og erum ekki að því, eða hjá löggæslunni og erum ekki að því. Við förum hins vegar fram á það að ríkissjóður finni leiðir til að gera betur, til að nýta fjármagn betur á hverju ári, nákvæmlega eins og heimilin eru að gera og allt atvinnulífið á Íslandi er að gera.

Það er gert lítið úr því að hér sé komið fram með 17 milljarða hagræðingaraðgerðir. Þetta er jafngildi þess að segja: 17 milljarðar skipta bara engu máli í stóra samhengi hlutanna. Þetta er að tala með óábyrgum hætti um opinber fjármál. Það er ekki endalaust til, hv. þingmaður. Peningarnir spretta ekki á trjánum á Íslandi. Þeir koma úr vasa launafólks og fyrirtækjanna í landinu og ríkissjóður á ekki sjálfstæðan rétt til þess að hækka skattgreiðslur fólks og fyrirtækja í þeim tilgangi að auka millifærslurnar, eins og hv. þingmaður boðar gjarnan. Það er ekki þannig að fólkinu í landinu verði enn betur borgið með því að ríkið taki meira til sín og sjái um það fyrir fólkið í landinu að dreifa fjármununum að nýju, vegna þess að fólkið sem er hér inni þykist oft og tíðum vita langbest hvernig jafnréttinu verði best útdeilt eða réttlætinu.

Varðandi kjarasamninga hefur ríkisstjórnin mjög góða sögu að segja: Kaupmáttur launa hefur vaxið stöðugt undanfarin tíu ár, stöðugt, á hverju ári. Hvað er það sem forseti ASÍ var núna nýverið, í vikunni, að segja? Aðalmál verkalýðshreyfingarinnar á Íslandi er að sjá kaupmátt launa vaxa. (Forseti hringir.) Og ríkisstjórnin hefur verulega góða sögu að segja. Ekkert mál skiptir jafn miklu fyrir launþegana í landinu eins og að verðbólgan komi aftur niður og við erum á góðri leið í því verkefni.